Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson, Anna Margrét Jónsdóttir, Sigrún Hauksdóttir, Selma Svavarsdóttir, Jóhanna Magnea Stefánsdóttir og “li Þór Hilmarsson.
Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson, Anna Margrét Jónsdóttir, Sigrún Hauksdóttir, Selma Svavarsdóttir, Jóhanna Magnea Stefánsdóttir og “li Þór Hilmarsson.
Sigrún Hauksdóttir.
Sigrún Hauksdóttir.
“li Þór Hilmarsson og Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson.
“li Þór Hilmarsson og Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson.
Halldór Gunnar “lafsson, BioPol á Skagaströnd.
Halldór Gunnar “lafsson, BioPol á Skagaströnd.
Pistlar | 24. apríl 2016 - kl. 21:34
Fundur um heimavinnslu matvæla
Eftir Önnu Margréti Jónsdóttur

Þann 27. janúar síðastliðinn var blásið til almenns fundar um heimavinnslu matvæla. Forsaga málsins var sú að nokkru fyrr höfðu komið saman nokkrar konur úr héraðinu sem áttu það sameiginlegt að vilja auka fjölbreytni í framsetningu afurða bænda og auka tengingar á milli bænda og neytenda.

Á fundinn voru fengin Óli Þór Hilmarsson sem er sérfræðingur í heimavinnslu afurða hjá Matís og hjónin Þórsteinn Rúnar og Jóhanna Magnea frá Vallakoti sem reka slíka vinnslu sjálf. Langar mig í þessum pistli að segja frá því helsta sem fram kom.

Gestir fundarins fóru í nokkrum orðum yfir hvað til staðar þarf að vera ef til stendur að fara út í heimavinnslu afurða. Í fyrsta lagi þurfa þeir sem að því standa að hafa tíma til að sinna því, þar sem þetta er tímafrekt ef vel á að því að standa. Til heimavinnslu þarf að koma sér upp eða fá aðgang að viðurkenndri aðstöðu en það er vel hægt að gera á sameiginlegum grunni fleiri en eins aðila. Slíkar matarsmiðjur eru starfræktar víðs vegar um land. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því áður en farið er af stað, hvar á að markaðssetja afurðirnar, hvort það er í samvinnu við veitingastaði, til nágranna, vina og vandamanna, ferðamanna eða annarra.

Þegar verið er að markaðssetja heimaunnar afurðir er gríðarlega mikilvægt að varan hafi einhverja sérstöðu. Má þar nefna dæmi um aðila sem selja kofareykt hangikjöt, taðreyktan silung, hvannalamb, hverabakað rúgbrauð og margt fleira. Með meiri sérstöðu er auðveldara að réttlæta hærra verð og varan verður áhugaverðari.

Algengt er að fyrsta skref þeirra sem ætla sér út í heimavinnslu sé að selja afurðir beint frá býli, án þess að vinna þær sjálfir. Sem dæmi má nefna að margir sauðfjárbændur selja nokkra skrokka til vina og kunningja sem sagaðir eru og unnir í sláturhúsinu. Þetta getur verið mikilvægt fyrsta skref, því þarna næst fyrsti hópur viðskiptavina. Ef þessir viðskiptavinir eru ánægðir með vöruna, er þetta góður hópur til að byrja að selja meira unnar vörur úr eigin vinnslu ef til þess kemur.

Mikilvægt er að þeir sem ætla sér að selja afurðir úr eigin vinnslu geri sér grein fyrir því að ekki er nóg að vinna vöruna í viðurkenndri aðstöðu, heldur þarf framleiðsluleyfi fyrir hverja vörutegund sem ætlunin er að selja. Misjafnt er eftir umfangi vinnslu hvort MAST eða Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga veitir slík leyfi. Til að fá framleiðsluleyfi þarf m.a. að liggja fyrir að húsnæði og hráefni uppfylli öll skilyrði, til staðar þarf að vera ítarleg lýsing á framleiðsluferli, innihalds- og næringargildisyfirlýsingar, framleiðsluskráning, ákvörðun á geymsluþoli og staðfesting á gæðum vatns, vöru og þrifa. Matís hefur aðstoðað þá sem í slíka vinnslu við að fá slík leyfi en þar starfa ýmsir sérfræðingar á þessu sviði. Fyrir starfsleyfi sem þessi þarf að greiða eftirlits- og leyfisgjald og er það nokkuð mismunandi eftir því hver veitir leyfið.

Í lok fundar kom það síðan fram að fyrirtækið Biopol á Skagaströnd hefur nýlega fengið styrk til að koma upp matarsmiðju. Til stendur að þar verði boðið upp á að leigja aðstöðu til heimavinnslu afurða auk þess sem þeir munu hafa starfsmann sem getur aðstoðað við fyrstu skref í ferlinu. Styrkveitingin kemur í kjölfar starfa NV-nefndar sem lauk störfum árið 2015. Fyrirhugað er að aðstaðan verði tilbúin í lok árs eða í byrjun árs 2017.

Fundurinn var í alla staði afar áhugaverður og gaman frá því að segja að yfir 50 manns sóttu hann. Sýnir það glögglega hversu mikill áhugi er í héraðinu á að efla hér okkar grunn atvinnugrein sem er landbúnaðurinn. Spennandi verður að sjá í framhaldinu hver þróunin verður. Hafa ber í huga að þó alltaf séu uppi kröfur um ódýr matvæli, þá er enn sterkari og vaxandi krafa um örugg matvæli. Það er jafnframt aukinn vilji um að neyta matar úr héraði, óskir um meiri gæði, hreinleika og færri aukaefni í afurðum. Síðast en ekki síst er að aukast áhugi á að vita uppruna og sögu þess sem neytt er og vilji til að viðhalda gömlum hefðum og matarhandverki.

Anna Margrét Jónsdóttir

Myndir frá matarvinnslunni Vallakoti, teknar af Halldóri Ólafssyni, þegar hann heimsótti staðinn sjá www.vallakot.is.

Myndir frá fundinum teknar af Selmu Svavarsdóttur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga