Pistlar | 16. maí 2016 - kl. 16:29
Stökuspjall: Vatn í læk og á
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Nú er hljótt um haf og rótt.
Hjúpar nóttin engi.
Ég hef sótt mér sælugnótt
á sumaróttu lengi.

Vorkoma hefur lengi verið vinsæl yrkisefni og sýnist muni verða, en vísuna hér að ofan orti Skarphéðinn Bjarnason Neðra-Vatnshorni. Þórarinn á Skúfi kvað hringhendu af sama tilefni:

Fjall úr híði hraðar sér,
hvamma prýði skorið.
Ó, það bíður eftir þér,
yndis blíða vorið.

Meðal merkisbóka skáldsins Hannesar Péturssonar frá Sauðárkróki er ein frá 1973 og heitir Ljóðabréf. Bókin er í 40 þáttum, og eru sumir mjög stuttir – og hnitmiðaðir. Stundum sögulegir þankar, en fá farveg í myndauðugri elfu með öðrum þönkum skáldsins.

Í 6. þætti segir höfundur okkur frá „dálæti sínu á bergvatnsám sem renna straumkvikar um malarbotn, ísbláan malarbotn. Hvergi gróðurslý, silungalaust bergvatn sem fellur með söng ofan úr fjöllunum. Það er gagntært mestan part ársins, en ólgar þegar það brotnar á steinhnullungum. Það streymir eftir möl, brotnar til skrauts, að því er virðist, á steinhnullungum og syngur og skemmtir í eyðidölum áður en það nær til byggða. Það rennur utan og ofan við stangveiðifélögin og leigutekjur bænda. Frjálst vatn ofan úr fjöllunum. Slíkt bergvatn er oftast kalt. Og hvergi er jafngott að slökkva þorsta sinn. Maður vantreystir ekki drykkjarvatni sem streymir um ískaldan malarbotn. Og það gera dýrin ekki heldur. Ungir hestar stíga fram á bakkann, teygja höfuðið niður að vatnsborðinu og svolgra nægju sína.“

Óður til vatns kviknaði einnig hjá norska skáldinu Nordahl Grieg í ljóði sem heitir Vatn:

Þetta er mig oft að dreyma:

Að ég liggi þarna og svelgi.

Freyðir um og yfir báða
úlnliðina vatnið kalt.
Stinnum hnúum stutt í botninn.
Steinar marka för í holdið
við hinn svala þunga þrýsting.
Þannig sé og finn ég allt.

Skáldið rabbar við lesandann í miklum trúnaði:

Veistu hvað ég þrái, – þó að

Það sé bara til að hlæja að –
og ég gæfi af ævi minni
ár til þess að sjá og fá
–       hvað mig er að dreyma á daginn
–       hvað mér veldur vöku um nætur?
Vatn í læk og á.

Vatn, sem streymir, vatn sem niðar
vor og haust með sínu lagi.

Geturðu skilið þessa þrá.

Þýðandi þessa ljóðs, Magnús Ásgeirsson, kom ofan úr Lundarreykjadal til að sinna bókmenntum út við sundin blá. Magnús þýddi líka þetta vísukorn eftir Goethe:

Hvar sem söngvar hljóma þér
hefurðu samfylgd góða.
Vondum mönnum var og er
varnað allra ljóða.

Vísað er til:
Skarphéðinn á Neðra-Vatnshorni: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=16193
Vatnið heima, ó Drottinn minn: http://jam.blog.is/blog/jam/entry/325919/
Lög við nokkur ljóða MÁ: http://thorhrod.mmedia.is/maasg/maasg.html
Eldra stökuspjall: http://www.huni.is/index.php?cid=12707
Nýhafið verkefni á Stikilsvef: Skáld við Húnaflóa: http://stikill.123.is/blog/2016/05/13/748717/   

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga