Mynd: Norðanátt.is
Mynd: Norðanátt.is
Fréttir | 23. júní 2016 - kl. 16:40
Afhentu nýtt ómtæki á Hvammstanga

Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga fékk afhent nýtt ómtæki á dögunum, en safnað var fyrir kaupum á því síðasta vetur og gekk sú söfnun í alla staði mjög vel. Nægt fé safnaðist til að kaupa vandað og handhægt tæki sem nýtist vel í framtíðinni til að greina og fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma. Þar með verður hægt að veita sjúklingum betri þjónustu og meðferð.

Sagt er frá þessu á Norðanátt.is. Nýja ómtækið er af gerðinni Sonosite Edge II frá fyrirtækinu Icepharma og fylgja því þrír hausar til mismunandi greininga. Tækið er með 5 ára ábyrgð og kostaði um 6,2 milljónir fyrir utan virðisaukaskatt sem fæst endurgreiddur, þannig að heildarverð tækisins er rúmar 7,6 milljónir króna.

Alls söfnuðust um 7,7 milljónir með ýmsum móti. Um 3,2 milljónir söfnuðust á kótelettukvöldi Lionsklúbbsins Bjarma í samstarfi við ýmsa aðila. Nokkrir ungir menn gáfu ágóðann af Pallaballi, rúmar 400 þúsund krónur, og ýmis félagasamtök fyrirtæki og einstaklingar lögðu um 4,1 milljón inn á reikning söfnunarinnar.

Fjölmenni var á heilsugæslunni þar sem Ágúst Oddsson læknir veitti tækinu viðtöku og sagði frá hvernig hægt væri að nýta það. Ágúst ávarpaði viðstadda og þakkaði íbúum Húnaþings fyrir rausnarlega gjöf, en Guðmundur Haukur Sigurðsson og Daniel Þór Duch Gunnarsson tók til máls fyrir hönd gefenda.

Fjölmargar myndir frá afhendingarathöfninni má sjá á vef Norðanáttar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga