Úr Húnavatnshreppi
Úr Húnavatnshreppi
Fréttir | 20. júlí 2016 - kl. 15:30
Húnavatnshreppur ljósleiðaravæðist

Ljósleiðaravæðingin í Húnavatnshreppi er nú í fullum gangi. Sveitarfélagið auglýsti eftir verktökum til að taka þátt í lokuðu útboði við verkefnið og skiluðu fjórir aðilar inn tilboðum. Samþykkt var að ganga til samninga við Bjarna Pálsson um lagningu heimtauga á leiðum 2 og 3 og gengið var til samninga við Lás ehf. um lagningu ljósleiðara á leið 1, bæði stofn- og heimtaugar. Jafnframt mun Lás ehf. leggja stofntaug á leið 2 og mun sú vinna hefjast 8. ágúst næstkomandi. Sagt er frá þessu í nýju fréttabréfi Húnavatnshrepps sem hægt er að lesa hér.

Þar kemur fram að Bjarni Pálsson byrjaði að leggja heimtaug á leið 2 þann 22. júní síðastliðinn og var Beinakelda fyrsti bærinn í sveitarfélaginu sem fékk heimtaug. Starfsmenn Láss ehf. eru byrjaðir að leggja ljósleiðara á leið 1 og var byrjað við sveitarfélagsmörk Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps, við Röðul. Lagning stofntaugar mun að mestu verða lokið í næstu viku, að því er segir í fréttabréfinu.

Húnavatnshreppur, ásamt Húnaþingi vestra og Blönduósbæ, voru á meðal þeirra sveitarfélaga sem fengu styrki til uppbyggingar ljósleiðara í sveitarfélögunum til að efla fjarskiptasamband í dreifðum byggðum sem markaðurinn sinnir ekki. Húnavatnshreppur stofnaði B deildarfélagið Húnanet um ljósleiðaravæðinguna í sveitarfélaginu og var Guðmundur Svavarsson ráðinn verkefnastjóri hjá félaginu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga