Að telja seli er góð skemmtun
Að telja seli er góð skemmtun
Fréttir | 21. júlí 2016 - kl. 11:37
Selir taldir á Vatnsnesi og Heggstaðanesi

Selatalningin mikla fer fram í dag en þetta er tíunda árið í röð sem Selasetrið á Hvammstanga stendur fyrir talningunni. Taldir verða selir á Vatnsnesi og Heggstaðanesi í Vestur-Húnavatnssýslu og óskar Selasetrið eftir þátttöku sjálfboðaliða við talninguna en mark­miðið með henni er að afla upp­lýs­inga um fjölda sela á svæðinu. Þeir sem vilja taka þátt geta mætt á Selasetur Íslands á Hvammstanga klukkan 14:30 í dag.

Í kynningarbæklingi frá Selasetrinu segir að þátttaka í selatalningunni sé frábært tækifæri til þess að fá innsýn í starfsemi Selasetursins. „Okkar markmið er að þróa sjálfbæra ferðamennsku í skoðun villtra dýra og rannsaka ástand selastofna við Íslandsstrendur. Við reiðum okkur á sjálfboðaliða til aðstoðar við rannsóknir,“ segir í bæklingnum.

Á meðan selatalningunni stendur vinna sjálfboðaliðar með starfsmönnum Selasetursins við að telja seli meðfram Vatnsnesi og Heggstaðarnesi. Strandsvæðinu er deilt í smærri einingar (2-7 km) og sjálfboðaliðum og starfsmönnum skipt í hópa. Áður en lagt er af stað eða klukkan 14:30, verður rannsóknarviðfangsefni Selasetursins kynnt ásamt þeim rannsóknum sem hún mun gagnast. Þegar talningum er lokið verður boðið upp á kaffi og með því og sérfræðingar Selasetursins munu sitja fyrir svörum.

Selatalningin mikla er ekki ætluð börnum yngri en 5 ára. Börn undir 16 ára aldri þurfa að vera í fylgd foreldris/forráðamanns.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga