Pistlar | 12. september 2016 - kl. 12:26
Söguleg tímamót í heilbrigðismálum Húnvetninga
Eftir Bjarna Jónsson

Héraðshælið á Blönduósi sem nú hýsir Heilbrigðisstofnun Húnvetninga fagnar 60 ára afmæli á þessu ári

„HEYRENDUR mínir góðir“ sagði Páll V.G. Kolka héraðslæknir Austur-Húnvetninga í útvarpserinidi um miðbik síðustu aldar. ÃžÃ¡ lýsti hann stofnun og byggingu Héraðshælisins á Blönduósi sem hefur verið stolt Húnvetninga og ein höfuðprýði Blönduóss og héraðsins alls í 60 ár. Héraðshælið hýsir nú Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi

Páll Kolka bar mikinn metnað og framsýni í heilbrigðismálum fyrir héraðið og landið allt. Og í stigahúsi spítalans eru fallegar styttur, brjóstmyndir af þeim Páli Kolka og frú Guðbjörgu Kolka til heiðurs þeirra mikla og merka starfi í læknisþjónustu Húnvetninga sem og allra landsmanna. Páll Kolka var langafi minn og móðir mín Ingibjörg Sólveig Kolka fæddist í gamla læknishúsinu og ólst upp hjá þeim Páli og Guðbjörgu fyrstu árin.

Páll Kolka læknir samdi frumvarp um heilbrigðisþjónstu sem þingmenn Skagfirðinga og Húnvetninga fluttu árið 1946 og þar stendur,

Frumvarp um Héraðshæli

"Heimilt er læknishéruðum, einum sér eða í félagi við nágrannahéruð eða héraðshluta að stofna héraðshæli. Verkefni héraðshælis skulu vera þessi:

a) að veita viðtöku sjúklingum til læknismeðferðar og hjúkrunar, og fer sá þáttur starfs þeirra eftir þeim lögum og fyrirmælum sem í hvert sinn gilda um almenn sjúkrahús.

b) að taka á móti fæðandi konum til meðferðar og stundunar, meðan á sængurlegu þeirra stendur.

c) að vera vistheimili fyrir gamalmenni.

d) að leggja til húsakost og starfslið fyrir heilsugæslustöð, þar sem slík stöð er eða verður ákveðin."

Þótt þetta frumvarp Páls yrði ekki að lögum, vísaði það þó veginn og varð undanfari heilsugæslumiðstöðvanna vítt og breitt um land.

Það var því með miklu stolti sem Páll Kolka læknir gat ávarpað landsmenn og greint frá þessu mikla sameiginlega átaki Húnvetninga:

Stoltir við verklok 1956

"Húnvetningar hafa nú sýnt og sannað, að þeir hafa enn þennan gamla arf í fullum heiðri og vilja ekki vera eftir í heilbrigðismálum, því að hér á Blönduósi er nú risinn upp stærsti og veglegasti héraðsspítali landsins og hefur ekkert framfaramál Austursýslunnar átt svo miklum og almennum vinsældum að fagna sem það.

Húsið er laust við þann kuldasvip, sem oft einkennir spítala, er bjart, litskrúðugt og vingjarnlegt. Allt hefur þetta sína sálrænu þýðingu, stuðlar að vellíðan sjúklinga og bætir því batahorfur þeirra. Með hjálp og tilstyrk góðra Húnvetninga nær og fjær og ýmissa annarra velunnara mun þessi stofnun verða svo úr garði gerð, að sýslunni verði til sóma og margir menn, utanhéraðs og innan, fái þar bót meina sinna og njóti þar líkna“.

Bygging Héraðshælisins á Blönduósi og fordæmi Húnvetninga á sínum tíma sýnir hverju öflugir einstaklingar og samtakamáttur heimafólks fær áorkað. En breytt stefna alþingis og stjórnvalda þarf að eiga sér stað gagnvart heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Bjarni Jónsson
Höf. býður sig fram til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga