Pistlar | 22. september 2016 - kl. 14:52
Ágætu Húnvetningar
Eftir Rúnar Aðalbjörn Pétursson, formann USAH

Húnavökuritið hefur verið gefið út af USAH frá árinu 1961 og hefur ritið að geyma miklar heimildir fyrir Húnvetninga. Ritnefnd Húnavöku hefur í gegnum árin unnið mjög óeigingjarnt starf við söfnun á efni í ritið og uppsetningu þess og verður sú vinna seint fullþökkuð. Ekki má heldur gleyma öllu því fólki sem samið hefur efni til birtingar í Húnavökunni en án þess framlags væri Húnavakan ekki til. Að mínu mati á Húnavökuritið að vera safngripur á öllum Húnvetnskum heimilum.

Líkt og flestir hafa efalaust tekið eftir fór dreifing á Húnavökuritinu fram með öðru sniði þetta árið heldur en verið hefur síðustu ár. Á ársþingi USAH í mars 2016 var tekin sú ákvörðun að ráðast í kynningarátak á Húnavökunni og reyna að stækka lesendahóp ritsins. Að þessu sinni var ritið borið í hús í sýslunni og stofnuð var valgreiðslukrafa á eina manneskju á hverju heimili. Verðinu á Húnavökunni var stillt í hóf og kostar bókin 2.190 kr.

Von mín er sú að sem flestir hafi tekið þetta góða rit sér í hönd og séð hvað það hefur upp á að bjóða og um leið notið lestrarins. Með því að greiða fyrir Húnavökuritið eruð þið kæru Húnvetningar að skjóta styrkari stoðum undir það menningar-, íþrótta- og æskulýðsstarf sem USAH stendur fyrir hér í héraðinu. Nú þegar er búið að greiða fyrir stóran hluta þeirra bóka sem sendar voru inn á heimili í sýslunni og vil ég hér með koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem hafa greitt. Um leið vil ég skora á þá sem ekki hafa skoðað Húnavökuna sem þeir fengu til sín í byrjun júní að taka hana úr plastinu og glugga í hana og um leið að höfða til þeirra hvort að þetta sé ekki rit sem við Húnvetningar eigum að fylkja okkur á bak við um ókomin ár.

Að lokum vil ég minna á að enn er hægt að greiða valgreiðslukröfuna í heimabönkum eða að greiða fyrir bókina með millifærslu.

Kt. 660269-7469
Reikningsnúmer 307-26-196
2.190 kr.

Með kveðju og þökk
Rúnar Aðalbjörn Pétursson
Formaður USAH

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga