Ljósm: Róbert Daníel
Ljósm: Róbert Daníel
Fréttir | 26. september 2016 - kl. 20:38
Styrktarþjálfun fer vel af stað

Fyrr í þessum mánuði fór af stað námskeið með léttum styrktaræfingum og teygjum í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi. Námskeiðið er í umsjón Marjolijn van Dijk, sjúkraþjálfara og Ástu Maríu Bjarnadóttur, einkaþjálfara. Móttökurnar hafa verið góðar og eru þátttakendur í tímunum af báðum kynjum og á öllum aldri. „Við Marjolijn ákváðum í enda sumars að gera eitthvað fyrir fólk sem vill ekki eða getur ekki verið í miklu sprikli og hoppi. Þar sem þessi hópur hefur verið í löngu fríi langaði okkur að gefa þessum hóp tækifæri á að byrja aftur,“ segir Ásta María í samtali við Húnahornið.

Tímarnir eru settir upp sem hóptímar en eru einnig einstaklingsmiðaðir og reyna þær Ásta og Marjolijn að koma til móts við óskir og þarfir hvers og eins. „Þar sem við erum oft tvær að leiðbeina getum við auðveldlega breytt æfingum fyrir hvern og einn sem hefur engin áhrif á hópinn í heild,“ segir Ásta.

„Við vonumst til að sjá fleiri ný og gömul andlit bætast í hópinn. Þeir sem eru forvitnir um tímana bendum við á að koma í einn tíma eða spjalla við okkur ef það eru einhverjar spurningar. Tímarnir eru á mánudögum og miðvikudögum frá klukkan 18:15-19:00 í íþróttahúsinu. Hlökkum til að sjá ykkur og vinnum saman að betri heilsu.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga