Pistlar | 30. október 2016 - kl. 21:55
Stökuspjall: Friðarögn til fágætis
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hvenær drepur maður mann lætur Laxness Jón Hreggviðsson spyrja til að fipa viðmælanda sinn eða hvenær var það að við rákumst við fyrst á einhvern tiltekinn vísnasmið, fórum að veita stökunum eftirtekt sem og höfundareinkennum hans. Sigurður á Jörva í Hnappadal á margar vísur í vísnabók Sveinbjarnar Beinteinssonar, Lausavísur frá 1400-1800 og vísast er að þar hafi ritarinn fyrst rekist á vísur þessa geðstirða hagyrðings. Já, það þarf máttugt hugarflug til að hæla þögn og fýlu í sömu línunni – og setja þar niðurstöðuorð vísunnar:

Daglegt brauð er dauflegt hér 
með deilu og þungum orðum. 
Þykir hátíð þegar er 
þögn og fýla á borðum.

Þegar vinnumaðurinn fór kvað Sigurður:

Þó hér færist fátt í lag
feginn verð ég hinu
að fjandinn burt í fyrradag
fór af heimilinu.

Og enn heldur hann áfram að kvarta yfir heimilisófriði:

Þó ég fari margs á mis
mundi ég una högum
ef friðarögn til fágætis
fengi á sunnudögum.

Þó Sigurður sé kenndur við Jörfa og byggi þar lengst, bindast margar vísur hans kirkjustaðnum Fitjum í Skorradal en þar bjó Sigurður nokkur ár með seinni konu sinni:

Fitjar eru falleg jörð, 
fyrnast þó að kunni. 
Hún er vel úr garði gjörð 
af Guði og náttúrunni.

Óspar er Sigurður að gera grín að sjálfum sér, hann situr í landi þegar hinir róa:

Sigurður hræðist sjó og vind
sérleg er hans viska
hann er að smíða hlóðagrind
þá hinir róa og fiska.

Halldóra B Björnsson, systir Sveinbjörns á Draghálsi, gerði vísnaþætti fyrir Sunnudagsblað Tímans sumarið 1964 og segir þar um Sigurð að hann hafi ort jafnhratt og aðrir mæltu fram laust mál og vísuna næstu á Sigurður að hafa ort þegar hann sá til skötuþjófsins

Stal hér mötu, stór sem jötunn,
strákur grófur.
beygði af götu, bölvaður skötu-
barðaþjófur.

Sigurður var uppi á sama tíma og Guðmundur Ketilsson, hið orðhaga skáld á Illugastöðum á Vatnsnesi. Ýmislegt eiga þeir sameiginlegt, yrkja um það hversdagslega, eru harla grínagtugir og eru ósínkir á eigin persónu til að skapa sér vísuefni. Guðmundur sagði rekadrumbinn hafa rekist rétt upp í hann Sigurð granna sinn og lét Illugastaðasteina senda sér sjálfum tóninn og hvessti heldur hæðnisbroddinn:

Engin voru verk hans góð,
en víða hálfmynd nokkur.
Gvendur heitinn hefur þjóð
hnoðað brauð af okkur.

Þáttur Halldóru BB um Sigurð http://stikill.123.is/blog/2016/10/29/756128/

Sigurður í Jörfa: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=27068

Illugastaðasteinar: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24791

Eldra stökuspjall: http://www.huni.is/index.php?pid=13

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga