Nöldrið | 17. janúar 2017 - kl. 10:38
Janúarnöldur

Heill og hamingju á nýbyrjuðu ári óska ég Húnvetningum öllum. Megi árið 2017 verða gott og gjöfult til sjávar og sveita án slysfara og annarra áfalla.

Ég vil byrja á að óska eigendum Aðalgötu 10 til hamingju með að húsið þeirra var valið jólahúsið á Blönduósi í ár. Það sannast á þessu vali að oft er einfaldleikinn fallegastur, en Aðalgata 10 var með látlausar en smekkilegar ljósaskreytingar sem fólk hefur kunnað að meta.

Það lífgar óneitanlega upp á skammdegið og birtir yfir þegar íbúar í bænum skreyta hús sín og garða í byrjun aðventu og nú færist í vöxt að fólk taki sig saman og setji  jólaskreytigar í götuna sína samanber til dæmir lýsingin í Hlíðarbrautinni þar sem íbúar við götuna settu ljósaslöngur og stjörnur  á alla ljósastaura götunnar.

Nú þegar þessar línur eru skrifaðar eru flestir búnir að slökkva jólaljósin, enda jólin löngu liðin og orðið vel merkjanlegt að daginn er tekkið að lengja, sólin er farin að gægjast inn um gluggann og þá mega rafljósin sín lítils.

Það eru margir sem sakna“Gluggans“ þó þunnur væri stundum en hann var þó eini vettvangurinn fyrir auglýsingar hér um slóðir og var sendur fram um allar sveitir. Sjónhornið á Sauðárkróki bitir auðvitað auglýsingar frá Húnvetningum sé þess óskað og  lofar að blaðið sé borið í öll hús í hverri viku, en einhver misbrestur hefur nú verið á því a.m.k. hefur það ekki komið vikulega á mitt heimili.  En þakka ber þá þjónustu sem Skagfirðingarnir bjóða okkur. Ýmsir benda á auglýsingar á Facebook, en hugsa ekkert út í að það eru alls ekki allir sem nota þann miðil og fjöldinn allur af eldra fólki notar ekki einu sinni tölvu svo auglýsingar á Húnahorninu sér það ekki heldur. Þetta er því algert ófremdarástand og ég skil ekki að það séu engir framsæknir menn eða konur hér um slóðir sem vilja skapa sér atvinnu og kaupa fyrirtækið Gretti og halda áfram þeirri ágætu starfsemi sem þar hefur verið rekin um árabil því þar er unnið að fleiru en prentun Gluggans og örugglega hægt að gera framleiðsluna fjölbreyttari með áræðni og dug.

Nú er rétt um vika þar til Þorri gengur í garð og við vitum öll hvað það þýðir. Þorrablót Vökukvenna  hér á Blönduósi hefur verið  haldið fyrsta laugardag í Þorra svo lengi sem elstu menn muna. Ég er löngu farinn að hlakka til og veit að svo er um marga. Vökukonur bjóða ávallt upp á úrvals Þorramat, skemmtiatriði hjá leikfélagsfólki hitta alltaf í mark og svo leika sprellfjörugir húnvetnskir piltar fyrir dansi. Við skulun því öll fagna Þorra og skemmta okkur í góðra vina hópi.

Kveðja, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga