Fréttir | 30. maí 2019 - kl. 07:26
Deiliskipulag við Þingeyrakirkju auglýst

Á vef Húnavatnshrepps er tillaga að deiliskipulagi við Þingeyraklausturkirkju auglýst. Tillagan samanstendur af skipulagsuppdrætti og greinargerð. Allar meginforsendur deiliskipulagsins eru í samræmi við Aðalskipulag Húnavatnshrepps 2010–2022. Tillagan liggur frammi til kynningar frá 16. maí til 1. júlí næstkomandi á skrifstofu Húnavatnshrepps, að Húnavöllum í Húnavatnshreppi og hjá skipulagsfulltrúa að Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi.

Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir færslu á aðkomuvegi og bílastæði fyrir 40 bíla nokkru norðar en núverandi stæði. Einnig er gert ráð fyrir uppbyggingu stígakerfis, kirkjutorgs og veggja auk þess sem umhverfi þjónustuhúss verður betrumbætt. Þá er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir starfsfólk og lítilli geymslu norðan þjónustuhúss. Viðfangsefni deiliskipulagsins er því að gera tillögu að aðkomuleiðum, bílastæðum, göngustígum, torgi og veggjum, gera tillögu að umhverfi þjónustuhúss, staðsetja byggingarreit fyrir geymslu og setja fram skilmála um húsgerð.

Megináherslur skipulagsins eru að uppbygging bæti ásýnd staðarins, rýri ekki staðhætti, landslag og menningarminjar.

Hér má sjá auglýsingu Húnavatnshrepps, deiliskipulagstillöguna og deiliskipulagsuppdráttinn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga