Fréttir | 20. maí 2016 - kl. 16:17
Vilko gefur Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi gjöf

Í tilefni af því að 30 ár eru liðin frá því að Vilko ehf. kom á Blönduós færði fyrirtækið Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi andvirði sjö sjónvarpstækja að gjöf. „Það var ákveðið af framkvæmdastjóra og stjórn Vilko, að fagna 30 ára afmæli Vilko á Blönduósi með einhverjum hætti og að styrkja HSN var alveg tilvalið“ sagði Kári Kárason framkvæmdastjóri Vilko ehf.

Kári sagði jafnframt að allir vissu hve mikil afþreyingarþörf væri þegar sjúkrahúsdvöl væri annars vegar og því fannst fyrirtækinu hugmyndin góð að gefa sjónvörð inn á sjúkraherbergin. „Starfsmenn Vilko eru sjö og því var ekki spurning um að gefa sjö sjónvörp, eitt fyrir hvern starfsmann“ sagði Kári hress að vanda.

Kári vildi nota tækifærið og hvetja önnur fyrirtæki og stofnanir í héraði til að hugsa vel til HSN og styrkja með því gott málefni. Á myndinni, sem Jón Sigurðsson tók, eru þau Kári Kárason, Sigurlaug Þóra Hermannsdóttir, formaður Hollvinasamtakanna og Ásdís H. Arinbjörnsdóttir, stjórnarmaður í Hollvinasamtökunum.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga