Ljósmynd: Norðanátt.is
Ljósmynd: Norðanátt.is
Fréttir | 29. maí 2016 - kl. 10:55
Opið hús á Syðri-Kárastöðum

Laugardaginn 4. júní næstkomandi verður Birgit Kositzke með opið hús í kanínubúi sínu á Syðri-Kárastöðum í Húnaþingi vestra. Tekið verður á móti gestum milli klukkan 13 og 17. Kvenfélagið Freyja sér um kaffi og kleinur eins og félagið hefur gert á opnu húsi undanfarin ár. Og að sjálfsögðu verða kanínur á staðnum.

Birgit segir í samtali við Bændablaðið að hún vonast til að geta fengið nokkrar handverksmanneskjur í heimsókn. Þar á meðal verður væntanlega Jóhanna frá Hvammstanga sem er að vinna úr beinum, hornum og hrossahári. Einnig Guðmundur Ísfeld frá Jaðri sem er að búa til mjög fallega hnífa. Hugsanlega verða fleiri handverksmenn og konur á staðnum, en undirbúningsvinna er á fullu. Vonast Birgit til að sauðburður verði að mestu afstaðinn hjá því leiklistar- og handverksfólki sem er í búskap.

Magnús Ásgeir Elíasson, tónlistarmaður, sauðfjárbóndi, hestamaður og dýragarðsrekandi á Litlu-Ásgeirsá ætlar að mæta á svæðið og skemmta fólki með með hljóðfæraleik og söng. Um kaffileytið mun Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir svo mæta og syngja með Magnúsi. Svo gæti verið að "hestamenn" frá Hvammstanga komi ríðandi í heimsókn.

Birgit segir að markmiðið sé að bjóða fólk á smá vorskemmtun og þakka öllum þeim sem stutt hafa Kanínu ehf. í gegnum fjármögnunarsjóðinn Karólínafund.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga