Fréttir | 23. júní 2016 - kl. 11:17
Viðhaldsþörf tækjabúnaðar BAH orðin mikil

Tækjabúnaður Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu er farinn að eldast og er viðhaldsþörf orðin mikil. Þetta koma fram á stjórnarfundi BAH sem haldinn var 14. júní síðastliðinn. Þar kom fram að markmið BAH á næstu árum sé að fjárfesta í endurnýjun tækjakosts slökkviliðsbíls sem gæti þjónað bæði því hlutverki að vera tankbíll og dælubíll og að BAH þurfi mikinn stuðning frá sveitarfélögunum á svæðinu við þetta metnaðarfulla og risavaxna verkefni.  

Á fundinum kom fram mikil ánægja með að eldvarnareftirlit á svæðinu væri komið í gott horf. Vel gangi að sinna eldvarnareftirliti og sé eldvarnareftirlit til sveita langt komið. Mikil vinna þurfi þó að eiga sér stað við að yfirfara fasteignir í eigu sveitarfélaganna að teknu tilliti til eldvarna.

Ársreikningur BAH fyrir árið 2015 var lagður fram til samþykktar á fundinum og koma þar fram að rekstrartekjur hafi numið 365 þúsund krónum og rekstrargjöld 14,3 milljónum króna. Framlög sveitarfélaganna námu 16 milljónum króna. Rekstrarniðurstaða ársins nam 1,9 milljónum króna. Bókfært eigið fé í árslok nam 9 milljónum króna. Handbært fé í árslok var 292 þúsund krónur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga