Fréttir | 26. ágúst 2016 - kl. 12:51
Verð lækkar til sauðfjárbænda

Sláturhús SAH Afurða á Blönduósi hefur ákveðið að lækka verð sauðfjárinnleggs á komandi sláturtíð um allt að 12%. Á vef SAH Afurða segir að ástæða lækkunarinnar sé að megninu til vegna samdráttar á raungildi útflutningstekna á gærum og aukaafurðum síðustu ára og að ljóst sé að enn verði frekari samdráttur í haust. Þá segir einnig að styrking krónunnar hafi líka haft neikvæð áhrif á útflutning, sérlega á Noregs markað, þar sem styrking krónunnar gagnvart þeirri norsku hafi verið umtalsverð.

Í tilkynningu á vef Landssamtaka sauðfjárbænda er hækkuninni mótmælt enda sé verið að láta bændur bera tap vegna uppsafnaðra birgða af gærum og aukaafurðum. Landssamtökin harma þessa ákvörðun sem sé til samræmis við verðskrá Sláturfélags Vopnfirðinga frá því á miðvikudaginn. „Harkaleg 12% lækkun á lambakjöti sætir furðu á meðan innanlandssala eykst, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið,“ segir á vef Landsambands sauðfjárbænda.

Verðskrá SAH Afurða fyrir sauðfjárafurðir haustið 2016 má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga