Fréttir | 27. september 2016 - kl. 12:31
Skýlaus krafa um mannaða lögreglustöð

Allt frá því að breyting var gerð á umdæmum lögreglu og sýslumanna í júní 2014 hefur sveitarstjórn Húnaþing vestra gert athugasemdir við að ekki hafi verið gert ráð fyrir mannaðri lögreglustöð á Hvammstanga. Það er skýlaus krafa byggðarráðs sveitarfélagsins að öryggi íbúa og ferðamanna í Húnaþingi vestra verði tryggt með mannaðri lögreglustöð á Hvammstanga. Farið hefur verið fram á við innanríkisráðuneytið að fjölgað verði í lögregluliðinu á Norðurlandi vestra til að svo megi verða.

Þetta kemur fram í bókun á fundi byggðarráðs í gær. Í bókuninni er fjallað um fund sem fulltrúar sveitarfélagsins áttu með innanríkisráðherra miðvikudaginn 21. september síðastliðinn vegna stöðu löggæslumála í Húnaþingi vestra í kjölfar atburðar sem átti sér stað í síðasta mánuði. Þá fór bíll í höfnina á Hvammstanga og maður lést.  

Fundinn sátu Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og skrifstofustjórarnir Þórunn Hafstein og Ingilín Kristmannsdóttir. Í bókun byggðarráðs kemur fram að ráðuneytið líti atburðinn mjög alvarlegum augum og að leitað verði allra leiða til að slíkt komi ekki fyrir aftur. Á fundinum var farið yfir gögn sem tengjast málinu, t.d. bréf Geirs Karlssonar yfirlæknis á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga sem hafði borist til ráðuneytisins og bréf Björgu Bjarnadóttur yfirsálfræðingi Húnaþings vestra.

Í bréfi Bjargar er fjallað um aukið álag á félagsþjónustu sveitarfélagsins vegna skorts á löggæslu m.a. vegna úrvinnslu áfalla þegar óhöpp verða á vegum og lögregla kemur ekki á staðinn sem og óöryggi íbúa þegar lögregla ekki til staðar þegar á reynir. Jafnframt var farið yfir áhyggjur byggðarráðs á skorti á landfræðilegri þekkingu starfsfólks neyðarlínunnar 112.

Byggðarráð hélt á lofti þeirri kröfu sinni og sveitarstjórnar að á Hvammstanga verði sett upp mönnuð lögreglustöð til að tryggja öryggi og jafnræði íbúa í lögregluumdæminu. Fram kemur í bókuninni að mannaðar lögreglustöðvar séu í tveimur sýslum af þremur og að vegalengdir séu slíkar að viðbragðstími verði þess vegna óásættanlegur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga