Fréttir | 18. október 2016 - kl. 11:58
Tónleikar Soroptimistaklúbbsins Við Húnaflóa

Á dögunum bauð Soroptimistaklúbburinn Við Húnaflóa Húnvetningum upp á tvenna tónleika. Fyrri tónleikarnir voru haldnir í Hvammstangakirkju 24. september og þeir síðari í Blönduóskirkju 25. september. Á tónleikunum komu fram ungar konur á öllum aldri með fjölbreytt atriði; söng, hljóðfæraleik og ljóðaflutning. Allir flytjendur gáfu vinnu sína og gaman er að segja frá því að allir flytjendur voru núverandi eða fyrrverandi nemendur tónlistarskólanna á svæðinu. Við erum svo heppin að eiga þessa skóla að og fá að njóta afraksturs þeirrar vinnu sem þar fer fram.

Þetta er í annað skiptið sem klúbburinn býður upp á sambærilega tónleika en markmiðið hefur verið að safna peningum til að halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur á 12. aldursári á svæðinu. Aðgangur var ókeypis en tekið við frjálsum framlögum.

Klúbbsystur eru óendanlega þakklátar öllum þeim sem komu fram og einnig þeim sem mættu og styrktu söfnunina. Án ykkar allra hefðu þessir tónleikar aldrei orðið. Þá má heldur ekki gleyma þætti foreldra sem fluttu flytjendur milli tónleikastaða því margir þeirra eru nokkuð langt frá því að hafa náð bílprófsaldri. Kærar þakkir til ykkar allra.

Gaman er að segja frá því að námskeiðið sem safnað var fyrir verður haldið um komandi helgi og er mjög góð þátttaka.

Fjölmargar myndir frá tónleikunum eru á þessari krækju:

https://goo.gl/photos/hU2VD6knhuLMSBJu6 

Sigríður Bjarney Aadnegard tók myndirnar bæði á Hvammstanga og Blönduósi.

 

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga