Fréttir | 19. október 2016 - kl. 09:18
Ætlar að kæra leigu á Lambtungum

Skotveiðifélag Íslands ætlar að kæra Sjálfseignarstofnun Grímstungu- og Haukagilsheiðar sem leigir út Lambatungur til rjúpnaveiða. Landsvæðið er á milli Grímstungu- og Haukagilsheiðar og er skilgreint sem þjóðlenda. Dúi Landmark, formaður SKOTVÍS, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að veiðileyfasala í þjóðlendum verði ekki liðin.

 „Sjálfseignarstofnunin Grímstungu- og Haukagilsheiði hefur tekið sér það alræðisvald að leigja út þessa þjóðlendu til þriðja aðila, fyrirtækis sem er í veiðileyfasölu,“ sagði Dúi. Í ljósi nýlegs úrskurðar forsætisráðuneytisins, þar sem Húnaþingi vestra var bannað að rukka fyrir rjúpnaveiði í þjóðlendu, geti SKOTVÍS ekki látið þetta óátalið.

Því undirbúi lögmaður nú kæru af hálfu SKOTVÍS á hendur þessari sjálfseignarstofnun. „Krafan felst í því að fallið verði frá sölu, að þeir afsali sér þessum rétti sem þeir telja sig eiga til útleigu á gæðum og fuglaveiði í þjóðlendu.“

Dúi sagði Grímstungu- og Haukagilsheiði eignarland og SKOTVÍS geri engar athugasemdir við veiðileyfasölu þar. „Það er náttúrulega alveg tvímælalaust að þar ráða menn hvort þeir selja inn á landið eða ekki. En Lambatungur eru þjóðlenda og þjóðlendur eru eitthvað sem Íslendingar eiga og eiga saman.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga