Horft til Vatnsness
Horft til Vatnsness
Fréttir | 19. október 2016 - kl. 13:37
Viðbótarfjármagn krafist í Vatnsnesveg

Sveitarstjórn Húnaþings vestra fagnar því að í nýsamþykktri samgönguáætlun 2015-2018 sé gert ráð fyrir framkvæmdum við brúarstæði Tjarnarár á Vatnsnesi enda hafi framkvæmdin verið baráttumál um árabil. Hún sé þó ekki nægileg til að laga ástand vegarins og kemur ekki í veg fyrir hættuástand né styttir hún ferðatíma skólabarna í skóla. Sveitarstjórn krefst þess að viðbótarfjármagn verði sett í frekari uppbyggingu vegarins strax á árinu 2017.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar frá 13. október síðastliðnum. Í bókun fundarins tekur sveitarstjórn undir bókun byggðarráðs um ástand vega í sveitarfélaginu, sér í lagi Vatnsnesvegar og þá stöðu sem komin er upp vegna stóraukinnar umferðar og langvarandi skorti á viðhaldi og uppbyggingu vegarins.

Í samgönguáætlun 2015-2018 sem samþykkt var á Alþingi nýverið eru áætlaðar framkvæmdir við Tjarnárá á Vatnsnesi árið 2018. Byggðarráð Húnaþings vestra krefst þess að ráðist verði án tafar í bráðnauðsynlegar úrbætur á Vatnsnesvegi og að gert verði ráð fyrir áframhaldandi varanlegum framkvæmdum, breikkun vegar og lagningu slitlags strax á árinu 2017.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga