Fréttir | 02. desember 2016 - kl. 13:42
Jólastemning í Húnaþingi vestra um helgina

Ljósin á jólatrénu við Félagsheimilið á Hvammstanga verða tendruð á morgun, laugardaginn 3. desember, klukkan 17:00. Aðalsteinn G. Guðmundsson mun leika jólalög og krakkar úr 4.og 5. bekk sjá um söng. Jólasveinar kíkja í heimsókn með góðgæti fyrir börnin. Fyrr um daginn fer fram jólamarkaður Rauða krossins á Hvammstanga. Á sunnudaginn verða jólatónleikar á Laugarbakka.

Á morgun fer einnig fram jólamarkaður Rauða krossins á Hvammstanga frá klukkan 11 til 17 í aðstöðu dreifnámsins, á neðri hæð Félagsheimilisins. Allur ágóði af sölu markaðsins mun renna í Jólasjóð Húnaþings vestra. Jólasjóðurinn starfar í samstarfi við félagsþjónustuna og kirkjuna en sjóðurinn aðstoðar fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu eftir þörfum. Einnig verður tekið við frjálsum framlögum í sjóðinn. Þeir sem ekki eiga heimangengt geta lagt inn á reikning Jólasjóðsins: 0159-15-380189, kt. 601213-0440.

Þá má minna á jólatónleika Jólahúnanna sem fara fram sunnudaginn 4. desember klukkan 13:30 og 17:00 í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka. Einkunnarorð tónleikanna eru „samstaða og kærleikur“. Söngvarar koma frá Skagaströnd, Blönduósi og Húnaþingi vesta og hljóðfæraleikarar frá Hvammstanga. Kaffisala og jólaglögg verður í hléi undir lifandi hljóðfæraleik.

Jólahúnarnir eru þau Skúli Einarsson (umsjón og skipulag), Daníel Geir Sigurðsson (bassi og tónlistarstjórn), Guðmundur Hólmar Jónsson (gítar), Elinborg Sigurgeirsdóttir (hljómborð), Sigurvaldi Í. Helgason (trommur og tæknistjórn) og Ellinore Anderson (lágfiðla). Gunnar Smári Helgason sér um hljóðblöndun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga