Fréttir | 19. janúar 2017 - kl. 10:34
Hraðhleðslustöð í Húnaver

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps leggur til að hraðhleðslustöð, sem Orkusalan ætlar að gefa sveitarfélaginu, verði staðsett í Húnaveri. Orkusalan er dótturfyrirtæki Rarik og í október á síðasta ári tilkynnti fyrirtækið að það ætlaði að gefa öllum sveitarfélögum á landinu hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Með framtakinu er ætlun fyrirtækisins að gera rafbílaeigendum auðveldara að ferðast um landið en hingað til hefur það verið illmögulegt vegna fárra hleðslustöðva á Íslandi.

Gjöfin var rædd á sveitarstjórnarfundi Húnavatnshrepps í gær og var sveitarstjóra falið að ræða við rekstraraðila Húnavers um tillögu sveitarstjórnar um að hleðslustöðin verði staðsetta í Húnaveri.

Í tilkynningu frá Orkusölunni í október á síðasta ári segir að með því að gefa sveitarfélögum hleðslustöðvar vilji fyrirtækið ýta undir rafbílavæðingu bílaflotans og ýta við fyrirtækjum og stofnunum, sem geta sett upp slíkar stöðvar við sín bílastæði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga