Fréttir | 21. janúar 2017 - kl. 23:10
Auglýst eftir umsjónarmanni eigna Húnavatnshrepps

Húnavatnshreppur óskar eftir að ráða aðila til að hafa umsjón með eignum sveitarfélagsins. Viðkomandi mun heyra undir sveitarstjóra Húnavatnshrepps og hafa starfsstöð á Húnavöllum. Starfið felst meðal annars í eftirliti, stjórnun og vinnu við viðhald allra eigna sveitarfélagsins og B deildar félaga þess í samræmi við fjárveitingar hverju sinni.

Þá felst starfið í yfirferð á eignum sveitarfélagsins og B deilda félaga þess við leigjendaskipti, yfirumsjón á nýframkvæmdum sveitarfélagsins og úttektum á þeim, daglegri stjórnun verklegra framkvæmda, áætlunargerð og annað sem sveitarstjóra felur viðkomandi.

Menntunar- og hæfniskröfur eru sveinspróf í löggiltri iðngrein eða próf í tæknigreinum, sem nýtist í starfi. Menntun og/eða reynsla af stjórnun og rekstri er æskileg. Reynsla af áætlanagerð, s.s. verk-, kostnaðar- og fjárhagsáætlanagerð er einnig æskileg. Reynsla af verklegum framkvæmdum er nauðsynleg og þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er æskileg. Sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og skipulagshæfni er mikilvæg. Leiðtogahæfni, jákvæðni, þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum er mikilvæg.

Umsóknarfrestur er til 3. febrúar næstkomandi. Skila skal umsóknum á skrifstofu Húnavatnshrepps, Húnavöllum, 541 Blönduós, eða með að senda umsókn í tölvupósti á netfangið einar@hunavatnshreppur.is. Stefnt skal að því að viðkomandi hefji störf frá og með 1. apríl 2017 eða eftir nánara samkomulagi.

Nánari upplýsingar veitir Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri í síma 452 4661 og 842 5800.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga