Mynd: vatnsdalsa.is
Mynd: vatnsdalsa.is
Fréttir | 22. febrúar 2017 - kl. 09:21
Mótmæla á öllu laxeldi í sjó

Pétur Pétursson, leigutaki Vatnsdalsár í Austur-Húnavatnssýslu, furðar sig stundum á því af hverju samtök um náttúruvernd hafi ekki komið sterkar inn í umræðu um fiskeldi við strendur Íslands. Hann telur mikilvægt að spyrna fótum gegn þeim glórulausu áformum um innflutning á norskum eldislaxi. „Ef fer sem horfir mun norsk fiskeldisfyrirtæki hugsanlega eyðileggja hverja ána af annarri líkt og þeir hafa gert í Noregi með frjóum norskum eldislaxi,“ segir Pétur í pistli á vef Vatnsdalsár.

Pétur segir sorglegt að horfa upp á að fiskeldisfyrirtæki, sem hafi brennt allar brýr að baki sér í Noregi, séu boðin velkomin til Íslands. Hann veltir því fyrir sér hversu mörg ár líði þangað til laxinn rati ekki heim vegna erfðablöndunar við norskan eldislax. „Fiskeldi verður stundað í framtíðinni en það verður að stunda það á ábyrgan hátt og læra af mistökum. Það þarf að vernda íslenska laxinn og mótmæla öllu laxeldi í sjó,“ segir Pétur.

Gott og árangursríkt samstarf með landeigendum í Vatnsdal
Pétur segir í pistli sínum að bændur og þeirra samtök sýni ábyrgð hvað varði náttúruna. Þeir passi vel sín tún og ofbeiti ekki ræktarlönd. Eins hafi þeir margir hverjir stutt með ráðum og dáðum að ekki verði gengið of nærri laxastofnum á vatnasvæðum í þeirra landi. Hann segist hafa átt mjög gott og árangursríkt samstarf með landeigendum í Vatnsdal um verndun og uppbyggingu á laxasvæðum með sjálfbærni í huga. Samstarfið hófst fyrir tuttugu árum þegar fyrirkomulagið að veiða og sleppa öllum löxum hafi verið tekið upp til þannig að náttúran njóti vafans. Pétur segir að það hafi verið stórt skref í upphafi og ákveðin fórn fyrir marga en fáir sjái eftir því í dag.

„Sú uppbygging sem staðið hefur yfir í Vatnsdalsá í átt að sjálfbærni má segja að sé ákveðin náttúruvernd, veiða og sleppa fyrirkomulagið er í raun okkar leið til að ná jafnvægi í náttúruna án þess að grípa inn í með seiðasleppingum eða öðru. Auðvitað eru ekki allir sammála, sumir halda því fram að fyrirkomulagið virki ekki þó rannsóknir sem gerðar hafa verið sýni ótvíræða sönnun þess að lax lifir eftir sleppingu og fjölgar sér í ánni,“ segir Pétur á vef Vatnsdalsár.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga