Fréttir | 21. mars 2017 - kl. 13:57
Húsfyllir á tónleikum í Blönduóskirkju

Húsfyllir var á tónleikum Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í Blönduóskirkju í gærkvöldi. Kórinn hefur nú lokið í bili flutningi sínum á verkefninu „Bó og meira til“, en haldnir voru þrennir tónleikar á Norðurlandi vestra. Á Facebook síðu kórsins segir að karlakórsmenn séu alveg í skýjunum með viðtökurnar og að stefnt sé á suðurferð með verkefnið. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær það verður.

Með kórnum var hljómsveit Skarphéðins Einarssonar og einsöngvararnir Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, Pálmi Gunnarsson, Guðmundur Rúnar Halldórsson, Rúnar Pétursson og Brynjólfur Friðriksson. Flutt var blanda af hefðbundinni karlakórstónlist og svo lögin hans Björgvins Halldórssonar.

Á Youtube má sjá kórinn og Hugrúnu Sif flytja lagið Tvær stjörnur eftir Megas.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga