Þórdís Kolbrún og Sigríður á aðalfundinum. Mynd: xd.is
Þórdís Kolbrún og Sigríður á aðalfundinum. Mynd: xd.is
Fréttir | 17. apríl 2024 - kl. 06:10
Sigríður endurkjörin formaður kjördæmisráðs

Sigríður Ólafsdóttir úr Húnaþingi vestra var endurkjörin formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi en ráðið hélt aðalfund sinn á Laugum í Sælingsdal um síðustu helgi. Á fundinum var samþykkt stjórnmálaályktun þar sem meðal annars er komið inn á að atvinnufrelsi og eignarréttur sé órjúfanlegur hluti frjáls samfélags og forsenda þess að hægt sé að tryggja jöfn tækifæri í landinu.

Að öflugir innviðir og einfalt og skilvirkt regluverk séu forsenda kröftugs atvinnulífs og að hið opinbera eigi að halda sig til hlés en treysta á krafta einstaklingsins og einkaframtaksins til að skapa samfélag sem blómstrar.

Þar segir að til að tryggja verðmætasköpun þurfi innviðir að vera í lagi, hvort sem um er að ræða samgöngu-, orku- eða fjarskiptainnviði. Brýnt sé að stjórnvöld liðki til fyrir frekari orkuöflun í kjördæminun með lagasetningu. „Þar má sérstaklega nefna ákall Vestfirðinga um að verða sjálfum sér nægir í raforkumálum, í samræmi við tillögur nefndar um orkumál í fjórðungnum sem skilaði af sér á síðasta ári og frekari uppbyggingu orkumannvirkja í Húnabyggð og Skagafirði,“ segir í ályktuninni.

Fleiri ályktanir fundarins má lesa hér.

Í stjórn kjördæmisráðsins voru kosin auk Sigríðar þau Jón Daníel Jónsson, Skagafirði, Maggý Hjördís Keransdóttir, Patreksfirði, Carl Jóhann Gränz, Akranesi, Bryndís Ásta Birgisdóttir, Súgandafirði, Þorsteinn Pálsson, Borgarfirði, Björn Ásgeir Sumarliðason, Stykkishólmi og Guðlaugur Skúlason, Sauðárkróki.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga