Skjáskot af vef Alþingis
Skjáskot af vef Alþingis
Fréttir | 21. mars 2017 - kl. 21:30
Bjarni Jónsson nýr á þingi

Bjarni Jónsson, varaþingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð í Norðvesturkjördæmis tók sæti á Alþingi í gær í fyrsta sinn, í fjarveru Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Bjarni er ættaður af Ströndum og úr Húnavatnssýslum en ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs er hann fluttist með fjölskyldu sinni að Hólum í Hjaltadal.

Bjarni flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í gær, í sérstakri umræðu um áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða. Bjarni lagði áherslu á hlutverk sveitarfélaganna og rannsóknarstofnana á landsbyggðinni um eftirlit og rannsóknir þegar kemur að verndun og nýtingu haf- og strandsvæða.

Bjarni lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1986, BA-prófi í hagsögu og viðskiptafræði frá HÍ árið 1992 og meistaraprófi í fiskifræði frá Háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum 1996. Bjarni hefur unnið margvísleg störf til sjávar og sveita. Hann starfaði m.a. sem forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og er nú forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Eiginkona Bjarna er Izati Zahra og búa þau á Sauðárkróki. Bjarni á tvö börn, og er nýbakaður faðir en þau hjónin eignuðust son 2. mars síðastliðinn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga