Séð norður eftir Höfðabraut. Mynd: hunathing.is
Séð norður eftir Höfðabraut. Mynd: hunathing.is
Fréttir | 21. maí 2024 - kl. 21:49
Hitaveitulagnir endurnýjaðar á Hvammstanga

Framkvæmdir við endurnýjun hitaveitulagna á Hvammstanga munu hefjast næstu daga. Lagnir verða endurnýjaðar við Veigarstíg, norður Höfðabraut og upp Lækjagötu að Hvammstangabraut. Verktími er áætlaður frá 22. maí til 30. ágúst og kappkostað verður að ljúka verkinu á sem skemmstum tíma, að því er segir á vef Húnaþings vestra. Íbúar og vegfarendur eru beðnir um að sýna framkvæmdinni og því raski sem hún kann að valda, þolinmæði. Verkið er mjög brýnt til að tryggja afhendingaröryggi á staðnum. 

Til að byrja með verður lokað fyrir bílaumferð í nokkra daga á Veigarstíg. Á meðan á framkvæmdum stendur verður reynt að hafa að lágmarki annan helming Höfðabrautar opinn fyrir umferð til suðurs. Ekki verður hægt að hafa gangstéttar opnar fyrir gangandi/hjólandi umferð.

Verktaki jarðvinnu er Gunnlaugur Agnar Sigurðsson en lagnavinna er í höndum starfsmanna þjónustumiðstöðvar. Ekki á að koma til truflana á afhendingu á heitu vatni nema þegar nýjar heimtaugar eru tengdar í hús.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga