Pistlar | 19. maí 2024 - kl. 21:51
Bæn á hvítasunnu og alla aðra daga
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Kæri frelsari heimsins, Jesús Kristur!

Anda þú á mig þínum heilaga góða anda sem minnir mig á hver ég er og hver þú ert. Já, andanum þínum sem fær mig til að lifa í voninni. 

Takk fyrir kirkjuna þína sem stofnuð var á hvítasunnudag. Blessaðu hana og öll þín börn. Þakka þér fyrir að vakir yfir hjörð þinni dag og nótt og yfirgefa okkur aldrei. Þú veitir okkur þrek og styrkir okkur til sérhvers góðs verks, frá degi til dags, með þínum heilaga anda.

Lof sé þér fyrir trúfesti þína, sem varir frá kyni til kyns og um eilífð.
Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Amen.

 Blær lífsins anda

Veistu, að í veröldinni er til afl sem þekkir drauma þína, langanir og þrár. Það veit hverjar hugsanir þínar eru og þekkir þrá hjartans. Það veit hvort þú situr, stendur eða liggur og jafnvel hve höfuðhár þín eru mörg. Það skapar, nærir og vekur.
Þú veist kannski ekki hvaðan aflið kemur, hvað það vill eða hvert andi þess blæs.
En það þekkir þig og elskar þig út af lífinu. Það veit hvert þú stefnir og hvert þinn innsti kjarni þráir að stefna.
Það vill fá að anda ferskum og svalandi blæ blessunnar sinnar á þig. Anda kærleika og fyrirgefningar, friðar og frelsis.
Leyfðu þessum lífsins anda, anda eilífðarinnar að leika um þig, vekja þig og næra, fylla þig tilgangi og lífi svo þér opnist himinsins hlið.

Andinn sem biður fyrir þér

Sjálfur andinn biður fyrir þér, heilagur andi Guðs. Hann biður með andvörpum sem ekki verður komið í orð.
Hann vill dá að leiða þig, vernda þig og blessa þig. Hann uppfyllir betur en hugur þinn girnist.

Viltu anda á mig, góði Guð, þínum heilaga anda. Þínum ferska blæ sem huggar mig og leiðbeinir mér, minnir mig á, vekur mig og gefur mér styrk og djörfung.

Andanum þínum sem hjálpar mér að kannast við þig, honum sem hjálpar mér að lifa í þér. Hans vegna er ég sá sem ég er.
Andaðu á mig daglega, Drottinn Jesús. Gerðu mig móttækilegan og opinn fyrir anda þínum. Til þjónustu í kirkjunni þinni sem stofnuð var fyrir anda þinn.

Í Jesú nafni. Amen.

Í þakklæti og með kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga