Laxi landað í Miðfjarðará í fyrra
Laxi landað í Miðfjarðará í fyrra
Fréttir | 21. júní 2024 - kl. 10:31
Laxveiðin fer rólega af stað

Veiðitölur frá helstu laxveiðiám landsins eru byrjaðar að birtast á vef Landssambands veiðifélaga en þær eru uppfærðar á miðvikudagskvöldum. Laxveiðiárnar í Húnavatnssýslum hafa verið að opna hver af annarri, Blanda 5. júní, Miðfjarðará 15. júní og nú síðast Víðidalsá 18. júní. Tveir laxar veiddust á opnunardegi Víðidalsár og opnunarhollið náði að landa samtals sex löxum, sem er líklega dræmasta opnun í mörg ár. Af þessum sex löxum komu fjórir úr Fitjaá.

Veðrið setti vissulega strik í reikning veiðimanna en það rigndi mikið sem þýddi litað vatn. Veiðimenn settu í nokkra fiska hér og þar en misstu. Líf var á öllum svæðum, en takan dræm.

Samkvæmt veiðitölum, sem miðast við miðvikudaginn hafa 18 laxar veiðst í Miðfjarðará og þrír í Blöndu. Vatnsdalsá opnar í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga