Fréttir | 26. júní 2024 - kl. 10:36
Rabarbarahátíð í gamla bænum

Haldin verður rabarbarahátíð í gamla bænum á Blönduósi á laugardaginn og er það í fyrsta skipti sem það er gert. Tilgangur hátíðarinnar er að hefja rabarbarann til vegs og virðingar sem mikilvægur hluti af íslenskri matarmenningu frá síðari hluta 19. aldar, að því er segir í auglýsingu um viðburðinn. Skipulögð dagskrá verður við og inni í Krúttinu milli klukkan 12 og 17.  

Á hátíðinni verður eitthvað fyrir alla, allt frá gömlum útileikjum sem er yngstu kynslóðunum framandi upp í vinnusmiðjur um jurtalitun með rabarbara. Ýmislegt ljúffengt úr rabarbara verður kynnt, þá verður uppskriftakeppni, söguganga, sultugerð, draugaganga, fróðleikur um sögu og nýtingu rabarbara, listasmiðja, listasýning og margt fleira.

Meðal þess sem verður á dagskrá en ekki tæmandi listi þar sem endanlega dagskrá er enn í vinnslu:

  • Fyrirlestur um sögu og nytjar rabarbara
  • Sýnikennsla á upptöku og nýtingu jurtarinnar
  • Sultugerð og sultusmakk
  • Krakkakennsla í sultugerð
  • Uppskriftakeppni
  • Draugaganga
  • Vörukynningar smáframleiðenda
  • Sölubásar
  • Söguganga um gamla bæinn
  • Ratleikur
  • Þjóðlegir leikir

Ekkert þátttökugjald fyrir dagskrá en gestir greiða sinn mat sjálfir fyrir utan smakk á völdum vörum.

Samhliða rabarbarahátíðinni verður hjólakeppnin Samhjól í Húnabyggð. Ræst verður út frá gamla bænum klukkan níu og hjólað í kringum Svínavatn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga