Pétur Arason. Mynd: hunabyggd.is
Pétur Arason. Mynd: hunabyggd.is
Fréttir | 26. júní 2024 - kl. 18:28
Tíma tekur að keyra sveitarfélögin saman

Sveitarstjóri Húnabyggðar, Pétur Arason, segir í pistli á facebooksíðu Húnabyggðar að það muni taka tíma að keyra sveitarfélögin Húnabyggð og Skagabyggð saman. Ánægjulegt sé hversu afgerandi kosningin hafi verið eða 92,5% í Skagabyggð og um 75% í Húnabyggð voru fylgjandi sameiningu. Pétur þakkar öllu því góða fólki sem lagt hafi á sig mikla vinnu samhliða sameiningarferlinu og nefnir sameiningarnefndina, kjörstjórnir, ráðgjafa og ýmsa aðra.

Nefnir hann þá sérstaklega Erlu Jónsdóttur, oddvita Skagabyggðar, og Guðmund Hauk Jakobsson, forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar. Erla hafi staðið í stafni frá byrjun enda hafi frumkvæðið komið frá Skagabyggð en saman hafi hún og Guðmundur Haukur unnið þrotlausa vinnu við að verja og sækja hagsmuni svæðisins gagnvart yfirvöldum tengt sameiningunni.

Í pistli Péturs eru svo tilvitnanir í Erlu og Guðmund í tengslum við niðurstöður kosninganna um síðustu helgi.

Guðmundur Haukur segir: „Þetta er virkilega ánægjuleg niðurstaða. Þetta er það sem búið er að vera að vinna að og það er gott að fá skýrar og góðar niðurstöður. Enn og aftur sýnum við vilja í verki og við ætlumst til þess að stjórnvöld geri hið sama og klári á haustþingi að tryggja með lagasetningu að undanþágur á fasteignamatsskyldu orkufyrirtækja verði afnumdar svo sveitarfélagið hafi þær tekjur sem því ber.“

Erla segir: „Það er búinn að vera langur aðdragandi hjá okkur í þessu máli og við höfum vandað okkur og hlustað á íbúana. Við lögðum mikla áherslu á að sjónarmið unga fólksins kæmu sterkt í gegn þó auðvitað skipti álit allra miklu máli. En unga fólkið er framtíðin og ég veit að þau eru full bjartsýni og það er ég líka. Ég er gríðarlega ánægð að niðurstaðan sé svona ótvíræð með met kjörsókn í Skagabyggð og ég hlakka til framhaldsins.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga