Fréttir | 27. júní 2024 - kl. 12:33
Listsýningin Við erum náttúran

Á morgun opnar í Hillebrantshúsinu á Blönduósi listsýningin Við erum náttúran. Á sýningunni er hægt að stíga inn í heim þar sem list og náttúra fléttast saman og skoða skemmtileg verk Inese Elferte og Morgan Bresko. Í verkum þeirra blandast saman lífræn form og litir og ná þau að fanga kjarna glæsileika og þrautseigju náttúrunnar.

Í verkunum er samlíf mannsins og náttúrunnar rannsakað og vekja þau áhorfendur til umhugsunar um tengsl sín við umhverfið. Málverkin eru margbrotin og tilfinningaþrungin og sækja innblástur í lífríkið og flóruna í kringum okkur.

Við erum náttúran er meira en sýning, hún er upplifun sem býður gestum að staldra við, skoða og takast á við fegurð og margbreytileika náttúrunnar, segir í auglýsingu frá sýningaraðilum en hún verður opin klukkan 13-17 dagana 28.-30. júní.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga