Rabarbari
Rabarbari
Fréttir | 28. júní 2024 - kl. 10:47
Ætlar að rækta rabarbara innanhúss

Einkahlutafélagið Framhugsun fékk nýverið milljón króna styrk úr atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra vegna verkefnisins Rabarbaron, sem snýst um framleiðslu á rabarbara innanhúss. Í Morgunblaðinu í dag rætt við Friðrik Má Stefánsson, eiganda fyrirtækisins, og fram kemur að engin dæmi séu um að þessi ræktunaraðferð hafi áður verið notuð hér á landi.

Fram kemur í frétt Moggans að rabarbarinn verði ræktaður í myrkvuðu umhverfi og með þeirri aðferð sé stefnt að því að auka sætleika, lit og bragðgæði stönglanna. Einnig náist fram lengri uppskerutími með auknu magni og meiri gæðum afurðanna.

Gert er ráð fyrir að húsnæði ásamt aðstöðu fyrir ræktunina verði tilbúið í haust og markmiðið er að hefja framleiðslu næsta vor, þó fullum afköstum verði ekki náð fyrr en vorið 2026. Verkefninu er ætlað að auka tekjur af frumframleiðslu og skapa störf í Húnaþingi vestra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga