Fréttir | 01. júlí 2024 - kl. 14:56
Nýtt starf menningar- og tómstundafulltrúa Skagastrandar

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur í hyggju að búa til nýtt starf menningar- og tómstundafulltrúa samhliða skipulagsbreytingum vegna starfsemi tómstundastarfs aldraðra og félagsmiðstöðvarinnar Undirheima. Verkefni hans væri umsjón með félagsmiðstöðinni og tómstundastarfi aldraðra, að vera tengiliður sveitarfélagsins við félagasamtök sem eru með skipulagða íþrótta- og tómstundastarfsemi í sveitarfélaginu, vinna í nánu samstarfi við stjórnendur grunnskóla og íþróttamiðstöðvar og hafa umsjón með ungmennaráði.

Einnig hefði viðkomandi starfsmaður aðkomu að verkefni um barnvæn sveitarfélög, væri tengiliður og umsjónaraðili með verkefninu Heilsueflandi samfélag og kæmi að undirbúningi viðburða á vegum sveitarfélagsins.

Starfið var til umfjöllunar á sveitarstjórnarfundi sem fram fór í síðustu viku og þar samþykkti sveitarstjórn skipulagsbreytingarnar og fól starfandi sveitarstjóra að vinna málið áfram.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga