Fréttir | 13. maí 2022 - kl. 21:11
Kjörfundir vegna sveitarstjórnarkosninga

Sveitarstjórnarkosningar fara fram á morgun, 14. maí. Í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hefst kjörfundur klukkan 10 og lýkur klukkan 20. Í Húnaþingi vestra hefst kjörfundur klukkan 9 og lýkur klukkan 22. Engin kosning fer fram á Skagaströnd þar sem einn listi bauð fram og er sjálfkjörinn og óbundin kosning, persónukjör fer fram í Skagabyggð þar sem enginn framboðslisti kom fram.

Kjörstaður í Húnavatnshreppi verður í Húnavallaskóla að Húnavöllum og kjörstaður á Blönduósi verður í Norðursal Íþróttamiðstöðvarinnar, gengið er inn frá Melabraut.

Á sama tíma fer fram skoðunarkönnun, meðal íbúa um nýtt nafn á sameiginlegt sveitarfélag Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar.

Atkvæði verða talin í fundarsal Blönduósbæjar að Hnjúkabyggð 33. Yfirkjörstjórn mun hafa aðsetur á sama stað. Hægt er að hafa samband við formann yfirkjörstjórnar, Lee Ann Maginnis, á netfanginu lam@blonduos.is.

Kjörfundur í Húnaþingi vestra verður haldinn í Félagsheimili Hvammstanga. Atkvæði verða talin í Félagsheimilinu Hvammstanga, þar sem kjörstjórnin er staðsett, og hefst talning klukkan 23.

Kjósendum ber að framvísa persónuskilríkjum á kjörstað. Kjósendum er einnig bent á kosningavef innanríkisráðuneytisins: www.kosning.is. Kjósendur geta kannað hvar þeir eru á kjörskrá á vef Þjóðskrár - https://skra.is/folk/kjorskra-og-kosningar/hvar-a-eg-ad-kjosa/

Þegar slegin er inn kennitala kemur upp nafn, lögheimili og sveitarfélag. Yfirleitt birtast einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga