Fréttir | 26. mars 2024 - kl. 14:48
Tilraunir með að nýta grásleppu betur

Hjá Biopol á Skagaströnd hafa verið gerðar tilraunir til að nýta kjöthluta grásleppunnar til framleiðslu á matvöru og verða afurðirnar kynntar á sjávarútvegssýningunni í Barcelona í næsta mánuði, að því er fram kemur á vef Fiskifrétta. Haft er eftir Halldóri G. Ólafssyni, framkvæmdastjóra Biopol, að gerðar hafi verið tilraunir með kald- og heitreykingu grásleppuflaka og þurrkun á grásleppuhveljum með það fyrir augum að bjóða hana sem valkost í gæludýrafóður.

„Við höfum verið að búa til sýnishorn til þess að kynna úti á markaðnum. Fyrirtækin Brim og Bjarg á Bakkafirði hafa tekið þátt í þessu með okkur ásamt Háskólanum á Akureyri. Brim mun kynna þessar vörur á sjávarútvegssýningunni í Barcelona og jafnvel einnig á sjávarútvegssýningu í Póllandi næsta haust með það fyrir augum að komast að því hvort einhver áhugi sé fyrir þessum vörum,“ segir Halldór í samtali við Fiskifrétti en þar má lesa nánar um málið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga