Þingeyrakirkja
Þingeyrakirkja
Fréttir | 28. mars 2024 - kl. 09:02
Helgihald um páskana

Páskarnir eru ein mesta hátíð kristinna manna. Þá er krossfestingar Krists og upprisu hans minnst. Þessi merki boðskapur hefur táknræna merkingu ekki síður en sögulega. Margir nota hátíðina til samvista með sínum nánustu, vinum og/eða ættingjum, sumir leggjast í ferðalög en aðrir njóta einfaldlega þess að vera til. Svo eru þeir sem sinna helgihaldi um páska og rækta trú sína og innri mann.

Helgihald um bænadaga og á páskum verður fjölbreytt að vanda í Húnavatnssýslum og má finna dagskrá Húnavatnsprestakalls á Facebook.

Þar kemur m.a. fram að í dag skírdag fer fram guðsþjónusta á baðstofulofti HSN á Blönduósi klukkan 11 og á dvalarheimilinu Sæborg á Skagaströnd klukkan 14. Messa verður í Prestbakkakirkju klukkan 14 og fermingarmessa verður í Blönduóskirkju klukkan 13.

Á morgun, föstudaginn langa, fer fram lestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hvammstangakirkju klukkan 13, í Blönduóskirkju klukkan 17 og Hólaneskirkju klukkan 17 en þar fer einnig fram tónlistarflutningur. Krossljósastund verður í Víðidalstungur klukkan 20. Á laugardaginn verður fermingarmessa í Þingeyrakirkju klukkan 13.

Hátíðarguðsþjónustur verða á páskadag sem hér segir:

  • Hólaneskirkja klukkan 9 og morgunverður á kirkjulofti á eftir.
  • Blönduóskirkja klukkan 9 og vöfflukaffi eftir stundina.
  • Höskuldsstaðakirkja klukkan 11.
  • Melstaðakirkja klukkan 11 og súpa í safnaðarheimilinu á eftir.
  • Þingeyrakirkja klukkan 11 og barn borið til skírnar.
  • Svínavatnskirkja klukkan 13.

Annan í páskum verður fermingarmessa í Bólstaðarhlíðarkirkju klukkan 14.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga